Eins og alþjóð veit eru kaffihús borgarinnar sem frjósöm mold er uppúr vaxa hugmyndir á hugmyndir ofan, sumar jafnvel nokkuð góðar. Fyrr í kvöld fæddist ein slík yfir ölkollu (Beamish extra stout fyrir áhugasama) á ónefndri knæpu. Hún er í grófum dráttum sú að upp verði aftur tekið sjónvarpsleysi á fimmtudögum, sem yrði þá hvatning fyrir kvikmyndahús, gallerí, tónleikasali og hvaðeina til að beina sínu viðburðaframboði á þá daga og jafnvel stilla verði í hóf. Fólk sem alla jafna lætur eitt og annað framhjá sér fara ætti því aungva afsökun og félags- og listalíf landans yrði allt annað og betra.
Annar kostur við þetta fyrirkomulag yrði lækkaður rekstarkostnaður Rúv. Sparnaðinn væri hægt að nýta til framleiðslu á innlendu efni. Ekki væri verra ef það yrði af gamansömum toga svo áhorf spaugstofunnar myndi lækka eitthvað niðurfyrir 70 hundraðshlutana, sem afleiðing af (hugsanlega) fyndnum gamanþáttum.