Í dag gekk ég í gegnum gamla bæinn í Tübingen. Þar voru grænfriðungar að spila hvalasöng af snældu og safna undirskriftum fyrir einhverjum fjandanum. Ég, eins og allir sannir Íslendingar, hugsaði mér gott til glóðarinnar að útskýra fyrir þessum hippum að mér þætti ekkert betra en hrátt hvalkjöt og að snúa saklaus lömb úr hálsliðnum, og éta þau síðan (helst hrá). Allt í lagi, kannski ekki alveg svona gróft, en ég var búinn að ákveða að ljúga því að mér þætti ekkert betra en hvalkjöt (held hreinlega að ég hafi aldrei smakkað hval). En hvað haldiði! Þeir yrtu ekki á mig, bölvaðir. Líklega vegna þess að ég var í rússkinnsjakkanum mínum, og þeir hafa hugsað að ég væri óforbetranlegur dýranauðgari og trjámorðingi. Þar missti ég af skemmtun þessa dags.
Úthúðið núna ljótum þankagangi mínum í athugasemdakerfinu, en undir nafni þó.